Höfnin

Um Kópavogshöfn

Kársnes

Vestasti hluti Kópavogs

Kársnes er vestasti hluti Kópavogs og að mörgu leyti aðskilið frá öðrum hverfum bæjarins vegna Hafnarfjarðarvegar. Byggðin á Kársnesi er mjög gróin en á sitthvorum enda hennar, við hafnarsvæðið og í Hamraborg, eru spennandi uppbyggingar- og þróunarsvæði. Ólík staðareinkenni innan Kársnessins skipta því í fjóra hluta þar sem Borgarlínan mun fara um; Hafnarsvæðið á Kársnesi (Bakkabraut), Borgarholtsbraut vestur, Borgarholtsbraut austur og Hamraborg.

Kársnes

Fossvogsbrúin

Fossvogsbrúin er mikilvægur liður í 1. lotu Borgarlínunnar og gert er ráð fyrir að niðurstöður úr hönnunarsamkeppni fyrir brúna verði kynntar 2021. Með Fossvogsbrúnni munu göngu og hjólatengingar stórbatna og mun stofnleið stígakerfis höfuðborgarsvæðisins liggja um strandlínuna við Kópavog um Bakkabraut og yfir Fossvoginn. Því má reikna með að Bakkabraut verði fjölfarin borgargata þar sem fjölbreyttir ferðarmátar munu blandast saman.

Kársnes

Spennandi uppbygging

Hafnarsvæðið á Kársnesi er í mikilli uppbyggingu og endurnýjun. Fyrir liggja nýjar deiliskipulagstillögur fyrir fjölda reita innan svæðisins, ásamt því að unnið er að tillögum á öðrum reitum. Framtíðarsýn svæðisins er að skapa hlýleg og örugg göturými, þar sem íbúum og gestum líði vel. Sú uppbygging sem þegar er hafin á Kársnesi gefur til kynna að þar sé að rísa nútímalegt hverfi í bland við gömlu byggðina, þar sem íbúar svæðisins muni verða í kjöraðstæðum til að nýta sér Borgarlínuna og þá innviði sem henni fylgja. Huga þarf vel að stígum hverfisins við stöðvar Borgarlínunnar og aðra innviði hennar til að stuðla að því að íbúar þar nýti sér Borgarlínuna og virka ferðamáta í sem mestum mæli.

Kársnes

Aðdráttarafl

Nálægðin við höfnina og sjávarútsýnið veita svæðinu mikið aðdráttarafl en nú þegar er þar mikill straumur vegfarenda sem nýtir sér góða göngu- og hjólastíga meðfram strandlengjunni sér til ánægju og heilsubótar. Spennandi hlutir hafa þegar litið dagsins ljós og þar má nefna nýtt baðlón yst á hafnarsvæðinu. Mun það án efa verða spennandi áfangastaður fyrir íbúa á höfuðborgarsvæðinu en einnig innlenda og erlenda ferðamenn þegar fram í sækir.